Útinám í Kerhólsskóla

Drög að stefnu Kerhólsskóla í útinámi og umhverfismennt má rekja aftur til ársins 2009 þegar vinna við þróunarverkefnið Fjölbreyttir kennsluhættir í einstaklingsmiðaðri kennslu hófst. Þá hét skólinn Grunnskólinn Ljósaborg. Því verkefni lauk um mitt ár 2010.

Grunnskólinn Ljósaborg hóf starfsemi árið 2005. Í aðdraganda stofnunar komu foreldrar og aðrir íbúar sveitarfélagsins fram með hugmyndir að skólastefnu og varð úr að skólinn skyldi starfa í anda einstaklingsmiðaðs náms og umhverfismenntar með áherslu á list og verkgreinar.

Haustið 2010 hófst vinna við þróunarverkefnið Til móts við náttúruna og lauk því árið 2012. Síðan þá hefur útinám verið fastur liður í skólastarfi Kerhólsskóla. Það hefur styrkt faglegt starf skólans, aukið fjölbreyttni í kennsluháttum, sett svip sinn á skóladagatalið, aukið umhverfisvitund nemenda og starfsfólks og síðast en ekki síst eflt tengsl skólans við grenndarsamfélagið.

Í Kerhólsskóla hefur frá upphafi verið talað um útinám frekar en útikennslu. Var það orð valið þar sem starfsmönnum þótti það leggja meiri áherslu á nemandann, hlut hans og virkni í náminu. En einnig vegna þess að í útinámi er samvinnunám og jafningjafræðsla mjög stór þáttur. 

26. september 2017

Advertisements