Umhverfisdagar

Á hverju ári er í Kerhólsskóla ákveðinn fjöldi daga sem kallaðir eru umhverfisdagar. Þeir dagar eru tengdir ákveðnum atburðum í sveitarfélaginu, nýttir til vettvangsferða, gönguferða eða helgaðir skólalóðinni og ræktun.

Það er fastur liður í skólastarfinu að fara í réttir. Þangað fara bæði leik- og grunnskóladeild. Í haust var ekkert fé í Hólaréttum en í staðinn var farið í réttir í Kringlumýri á Lyngdalsheiði. Við nýttum ferðina jafnframt í heimsókn í Laugardalshelli sem á sér merka sögu. Þar er búið að endurgera hellinn í þeirri mynd sem hann var þegar búið var í honum.

Í lok nóvember, ár hvert, er farið að Sólheimum í Grímsnesi þar sem nemendur í sjöunda bekk kynna vettvangsnám sitt. Þeir stunda vettvagnsnám á Sólheimum einu sinni í viku frá september til nóvember loka. Þar kynnast þeir íbúum Sólheima, heimsækja vinnustofur, kynnast sögu Sólheima og sjálfbæru samfélagi.

Oft hefur verið uppskerudagur á haustin þar sem teknar hafa verið upp kartöflur en nú í haust var það gert í útinámstímum og gafst vel. Skógarferðir hafa líka verið vinsælar á haustin. Í desember fara elstu árgangar leikskóla ásamt nemendum úr tveimur yngstu árgöngum grunnskólans ávallt saman í skógræktina á Snæfoksstöðum og ná í jólatré fyrir jólaball skólans.

Í apríl á hverju ári, um eða eftir Dag umhverfisins, hafa verið skipulagðir tveir umhverfisdagar. Þeir dagar hafa verið nýttir til þess að hirða um og laga aðstöðu á skólalóðinni sem er ákaflega fjölbreytt, skjólgóð og skemmtileg.

Á umhverfisdögum hefur verið smíðað útiskýli og bekkir, gert eldstæði, kurlaðir stígar, málað, grisjuð tré, tínt rusl, sópað, gróðursett, farið í ratleiki í nánasta umhverfi og aðra leiki þar sem samskipti, samvinna og upplifun eru stór þáttur.

30. apríl 2018

 

Advertisements