Vordagar

Vordagar í Kerhólsskóla hafa verið með svipuðu sniði í nokkur ár.

Í leikskóladeildinni hefur skapast sú hefð að farið er í heimsókn á bæ í sveitarfélaginu og lömbin skoðuð. Hafa bændur skipst á að bjóða heim.  Annan dag er síðan haldin sumargleði leikskóladeildar á skólalóðinni sem foreldrafélagið stendur að. Í ágúst hefur svo eigandi dýragarðsins í Slakka í Laugarási boðið leikskólabörnunum í heimsókn.

Í grunnskóladeild eru tveir vordagar tileinkaðir ferðum. Annar dagurinn er oftast helgaður hreyfingu og farið í hjólaferð út frá skólanum og sund að henni lokinni. Það fer eftir lengd hjólreiðatúrsins og áfangastaðar hvort öll grunnskóladeildin fer saman eða er skipt í tvo hópa.

Seinni daginn er farið í ferðalag og hefur síðustu ár verið fylgt ákveðinni áætlun sem sett var fram í þróunarverkefninu Fjölbreyttir kennsluhættir í einstaklingsmiðaðri kennslu. Vettvangsferðum er þar skipt í ákveðin þemu sem tengjast sjó, sögu, náttúrufyrirbærum, menningu og orku.

Í þessari áætlun um vettvangsferðir var gert ráð fyrir að hver nemandi í grunnskóladeild færi í tvær útilegur að Þingvöllum á skólagöngu sinni. Þetta er tveggja daga útiskóli þar sem nemendur gista í tjöldum, skoða og upplifa náttúruna og vatnið, kynnast sögunni, ganga um staðinn og elda matinn. Fyrsta útilegan var farin haustið 2011 og önnur útilegan vorið 2017.

Þriðji vordagur grunnskóladeildar er sameiginlegur hjá báðum deildum.  Þá hefur skapast sú hefð að fara í Þrastarskóg. Þangað mæta allir árgangar Kerhólsskóla að undan skildum tveimur yngstu leikskólaárgöngunum og allir foreldrar sem tækifæri hafa. Foreldrafélagið sér um veitingar, spilaður er fótbolti og farið í leiki.

30. apríl 2018

 

Advertisements