Um síðuna

Hugmyndin að þessari vefsíðu varð til í áfanganum UPP110 Vefsjórnun í Háskóla Íslands haustið 2016 og var verkefni í þeim áfanga.  Ábyrgðar- og umsjónarmaður síðunnar er sú sem þetta ritar, Ragna Björnsdóttir. Ég hef starfað sem grunnskólakennari frá árinu 1996, og í Kerhólsskóla frá árinu 2007. Á þessum árum hef ég kennt útinám og setið í útinámsteymi. Á árunum 2010 – 2014 sinnti ég starfi verkefnisstjóra í Grænfánaverkefni Kerhólsskóla og tók við því hlutverki aftur 2017.

Kerhólsskóli í Grímsnes og Grafningshreppi er samrekinn leik- og grunnskóli með 68 nemendum. Hann er starfræktur á Borg í Grímsnesi. Töluvert hefur verið skráð um útinámið í Kerhólsskóla. Bæði í tengslum við viðfangsefni þess og þróunarverkefni sem unnin hafa verið en einnig vegna vinnu við Grænfánaverkefni. Sumar af þessum upplýsingum er að finna á heimasíðuskólans  og eru aðgengilegar þar en aðrar ekki. Því kviknaði sú hugmynd að gera vefsíðu þar sem upplýsingum og verkefnum yrði safnað saman á einn stað.

Ég og teymisfélagar mínir, í útinámsteymi Kerhólsskóla, sjáum fyrir okkur að síðan nýtist teyminu og starfsfólki skólans sem ákveðin upplýsinga og gagnabanki. En einnig geta nemendur, foreldrar og forráðamenn þar fylgst með því sem unnið er í útinámi. Þegar fram í sækir verður vefsíðan líka nýtt til þess að setja inn efni sem tengist Grænfánaverkefni Kerhólsskóla.

Allar myndir, myndbönd og verkefni sem er að finna á síðunni eru eign Kerhólsskóla  og starfsfólks hans nema annað sé tekið fram og hafa verið birtar/birt að fengnu leyfi.

30. apríl 2018

Advertisements